Páll Hannesson (1869-1960) Guðlaugsstöðum

Identity area

Type of entity

Person

Authorized form of name

Páll Hannesson (1869-1960) Guðlaugsstöðum

Parallel form(s) of name

  • Páll Hannesson (1869-1960)

Standardized form(s) of name according to other rules

Other form(s) of name

Identifiers for corporate bodies

Description area

Dates of existence

02.01.1869-14.02.1960

History

Places

Eiðsstaðir; Snæringsstaðir og Guðlaugsstaðir

Legal status

Páll giftist Guðrúnu Björnsdóttur börn þeirra er Hannes stjórnarráðsfulltrúi, áður bóndi á Undirfelli, Elinbergur (dó uppkominn). Björn alþm. á Löngu mýri, Guðmundur bóndi á Guðlaugsstöðum, Hulda húsfreyja á Höllustöðum, dr. Halldór sauðfjár ræktarráðunautur og Ásdís hárgreiðslukona í Reykjavík.

Functions, occupations and activities

Mandates/sources of authority

Internal structures/genealogy

General context

Hinn 4. febr. s.l. andaðist á héraðshœlinu á Blönduósi einn af fyrirferðarmestu bændahöfðingjum Húnavatnsþings, Páll Hannesson, áður bóndi á Guðlaugsstöðum. Hann var fæddur þar á Guðlaugsstöðum 2. jan. 1870, og því rúmum mánuði meira en níræður er hann lézt. Foreldrar hans voru hjónin Halldóra Pálsdóttir bónda í Hvassa hrauni, Jónssonar, og Hannes smiður og bóndi Guðmundsson, bónda og alþm. Arnljótssonar, og var því Páll albróðir hins þjóðþekkta gáfumanns Guðmundar Hannessonar prófessors. Hefur föðurætt Páls setið Guðlaugsstaði svo öldum skipti, enda var hann tengdur þeim stað svo traustum böndum, að trauðla verður betur bundið. Þó þar hafi lokið langri og annríkri ævi, verður ekki sagt, að starfssviðið hafi borizt víða vm héröð. Hann fluttist með foreldrum sínum á fyrsta ári að Eiðsstöðum, og ólst þar upp til fullorðinsára, við önn og athafnir á erfiðu fjallabýli. Eiðsstaðir liggja í næsta nágrenni við Auðkúluheiði, og fenaðarferð tímafrek og erfið, meðan allt var ógirt og allar leiðir því opnar inn til afréttarinnar. Glíman við hana, hversu sem annars horfði við, var því skólaganga Páls. Hann sótti þroska sinn í erfitt og harðbýlt umhverfi. Hinu má ekki gleyma, að þótt um skólagöngu væri ekki að ræða, reyndist hann samt flestum hlutgengari, hvar sem hann hlaut rúm á langri ævi. Páll dvaldi óslitið á Eiðsstöðum fram yfir þrítugsaldur 13. maí 1897 kvæntist hann Guðrúnu Björnsdóttur, Eysteinssonar, — hins þjóðkunna bónda og ævintýra manns. Reyndist hún honum slíkur förunautur að fágætt var. Mun torvelt að sanna, hvort þeirra óx meira af þeim samskiptum. Víst er, að þar var meira en vel um bæði. Þau hjón hófu búskap á hluta af Eiðsstöðum vorið 1897, og bjuggu þar til vorsins 1903. Þá keyptu þau Snæringsstaði í Svínadal og fluttu þangað. Þar bjuggu þau næstu fjögur ár og búnaðist hið bezta. Vorið 1907 festu þau kaup í ættaróðali Páls, Guðlaugsstöðum, og bjuggu þar til vorsins 1947, við svo frábæra rausn og glæsibrag, að tæplega þótti lengra jafnað um Húnavatnsþing og þó víðar væri leitað. Þau bjuggu því hálfa öld og þar af fjóra tugi ára á Guðlaugsstöðum. Þá fengu þau bú sitt að mestu leyti í hendur Guðmundi syni þeirra. — Þegar augum er rennt yfir þennan feril Páls, blasir við að hann var ekki barn byltinganna, — hinn síleitandi — sem hvergi festi yndi. Hann dvaldi því nær alla ævi á tveim bæjum samliggjandi, og átti aldrei heima utan þeirrar sveitar er ól hann og fóstraði. Hann var því fyrst og fremst barn hennar Páll sagði mér fyrir fáum árum, að hann teldi sig sérstakan gæfumann og færði þrennt til. Hið fyrsta að fá að alast upp við handleiðslu foreldra sinna, sem hann mat mjög, og áreiðanlega að verðleikum. Hið annað að hafa notið fylgdar og ástúðar konu sinnar og barna, og sjá þau vaxa svo úr grasi, sem raun hefur gefið vitni. Hið þriðja að hafa fengið að eyða ævinni í dalnum sínum. Og Páll var manna ólíklegastur til að fara með fleipur í slíkum málum. | Þegar minningum er beint til Páls á Guðlaugsstöðum, mun flestum verða bóndinn minnisstæðastur, og verður þá oft fjármaðurinn fyrst fyrir, enda voru ýmsir þættir í fari hans sem fjármanns slíkir, að fágætt var Hann var svo næmur og stálminnugur á svipmót kinda, að ótrúlegt virtist. En glöggskyggni hans i því efni var ekki nema einn þátturinn. Ást hans á hjörðinni — hinn vökuli unaður, sem í því var fólginn að rétta líknandi hönd þeim, sem hjálparvana voru innan hennar, hvort sem um vanburða ungviði var að ræða eða þá, sem atvik eða yfirsjónir höfðu lagt að leiksoppi þess miskunnarleysis, sem öræfi okkar eru svo auðug af. Hann var og, sem áður getur alinn upp við fótskör þeirra og átti í ríkum mæli hvort tveggja: Það fegurðarskin sem til þess þurfti að njóta þess unaðar sem þau bjóða beztan, og það hugrekki sem til þess þurfti, að horfast í augu við grimmd þeirra án þess að blikna. En hann var ekki aðeins fjármaðurinn, eins og það hugtak er oftast skilið heldur engu síður fjárræktarmaðurinn. enda atti hann um skeið einn afurðahæsta og samstæðasta sauðfjárstofn héraðsins. En bóndinn á Guðlaugsstöðum var ekki bundinn þessu einu. Fyrirhyggja hans í smáu og stóru, átti séi fremur fáar hliðstæður. En þar var hann ekki einn um hituna. Mun þeim er bezt þekkja til, hafa orðið torleyst sú gáta hvort þeirra hjóna átti þar ríkari þáttinn. Svo samslungnir voru þeir í fari beggja. Vestur-íslendingur sem hér var á ferð, lét svo um mælt í ferðaminningum sínum. „Fannst mér ekkert ofsagt um heimilið það sögðu menn að það mundi vera mesti vandi að geta upp á því, sem ekki væri til á Guðlaugsstöðum, sem betra væri að hafa til bús, en án að vefa, og hef ég hugboð um að það sé alveg rétt. Er „glöggt gests augað“ sem kunnugt er, og mun hinum glöggskyggna drengskaparmanni er þessi orð reit, ekki hafa missýnzt þar Og hin þjóðfræga rausn þeirra hjóna var slík sameign þeirra, að á betra varð trauðla kosið. Páll rak löngum stórbú, og hafði því margt fólk í heimili. Voru þau hjón svo hjúasæl að fágætt var. En þó fjárbú þeirra væri fyrir ferðarmikið var það föst venja að hjúin ættu alltaf talsverðan bústofn, og hélzt sú venja allan þeirra búskap. Fór jafnvel svo eftir að synir þeirra uxu úr grasi, að þótt bú þeirra væri með ágætum að stærð og afurðagetu, kom fyrir að þau ættu ekki yfir helming þess sauðfjár, sem til var á heimilinu héldu þau þannig mjög í heiðri hinn forna hátt að gera hjúin meðeigendur og samábyrg um rekstur búsins Er sú mannrækt sem í því er fólgin tormetin til fulls, — enda torskilin þeim, sem ekkert þekkja til annars uppeldis en þess, sem bundið er þjóðháttum vorum í dag. Páll á Guðlaugsstöðum lauk sínum léttustu sporum áður en sú bylting hófst, sem fram hefur farið tvo síðustu áratugina. Má telja að hann hafi haft þrjá aldarfjórðunga að baki, er hún hófst. Hann var því að miklu Ieyti áhorfandi hennar. Hinu verður ekki neitað, að hann var aldrei hlutlaus áhorfandi. Slíkt var fjarri honum. Hann var langa ævi einn þeirra, sem „kenna til í stormum sinna tíða“. Og honum var ógjarnt að fara í felur með sárindi sín þegar svo féll að þau voru vakin. Hann var því löngum bóndi aldamóta kynslóðarinnar, enda þá orðinn fullþroskaður maður, sem helgaði sér þá hætti. sem þá voru fremstir, og vanur þeim af heilum hug. Hann tók líka tveim höndum þeim nýjungum í verkháttum, sem synir hans fluttu þangað heim, þegar þeim óx fiskur um hrygg. En hann var svo skapi farinn, að hann kaus sér að vera ekki aðeins barn nýjunganna heldur og herra þeirra. Það væri ekki rétt að segja að Páll á Guðlaugsstöðum hefði verið forustumaður í félagsmálum. Því olli skapgerð hans. Þess munu hafa verið mjög fá dæmi, að hann kveddi sér hljóðs á málþingum, og skorti hann þó hvorki vitsmuni né orðleikni til slíks. Og hann mun aldrei hafa leitað sér kjörfylgis til nokkurrar vegtyllu. Hitt er annað mál, að annarra fylgd mun ekki hafa verið frekar kosin, enda var hann oft ótrúlega áhrifaríkur í sínu umhverfi, þó hann teygði ekki fundarsetur með fjálglegum ræðuhöldum, enda víst að oft var leitað að Guðlaugsstöðum þegar um hin vandasamari mál var að ræða. Það var og trú þeirra er bezt þekktu til, að „þau mál myndu sízt að engu verða er þar voru ráðin“ eins og Snorri goði lét um mælt um Helgafell. Sú mun og raunin á að snjöllustu úrræðin skapast ekki alltaf í ys fjölmennis. En Páli voru falin ýmis störf fyrir sveitina. Hann sat , hreppsnefnd um skeið, hreppstjóri um allmörg ár, og í stjórn Svínvetningabrautarfélagsins um tugi ára og var þar átakagjarnt um skeið. Og þó Páll stæði þar ekki fremstur, mun oftar hafa brotið meira á honum en flesta grunar Hann var samvinnumaður af hugsjón og studdi Kaupfélag Húnvetninga og hliðargreina þess af alhug, meðan orka entist. Mun fárra fylgd hafa verið meir metin en hans, enda gerði kaupfélagið hann að heiðursfélaga sínum á efri árum. Þau störf er hann vann í þágu samfélagsins, rækti hann af alúð hins djúpskyggna drengskaparmanns. Tvennt er minnisstætt í fari Páls, auk þess, sem áður er á drepið. Hið fyrr er mannþekking hans, — ekki aðeins minni hans á mannsandlitin, heldur hve auðgert honum virtist að kafa mannssálina, — meta manngildið. Var mér það oft ráðgáta, hve sú bók virtist honum auðlesin, — spjaldanna milli og alveg ofan í kjöl. — Hið síðara var hin létta gleði hans, sem aldrei virtist haggast eða breyta um svip, hversu sem annars viðhorfis var. Hann var í gelði sinni eins og Halldór Snorrason: „æðrulaus og jafnhugaður*. Páll á Guðlaugsstöðum var einn þeirra manna, sem flestir munu þakklátir fyrir að hafa kynnzt.

Guðm. Jósafatsson.

Mér er mjög í minni er ég á unglingsárum mínum, kom að Guðlaugsstöðum í Blöndudal og sá með eigin augum reisn þess heimilis, er ég hafði svo mjög heyrt talað um af foreldrum mínum og ýmsum öðrum. Húsbændurnir hjónin Guðrún Björnsdóttir og Páll Hannesson voru bæði héraðskunn: Húsmóðirin fyrir framúrskarandi þrifnað og myndarskap innan bæjar. samfara mikilli stjórnsemi og skörungsskap. Var talið að Guðrún væri á undan samtíð sinni í þessu efni. Bóndinn fyrir umfangsmikinn búrekstur og stóran. Sérstaklega fór þó mikið orð af sauðfé Páls og því, hve hann var fjárglöggur. En allur þótti búskapur þeirra hjóna mjög til fyrirmyndar. Hér komu líka saman traustir stofnar: Faðir Guðrúnar var hinn sérstæð i maður Björn Eysteinsson, er bjó um eitt skeið á Réttarhóli í Forsæludalskvíslum, en faðir Páls kunnur bóndi og orðlagður hagleiksmaður Hannes Guðmundsson á Eiðsstöðum í Blöndudal. En annar sonur hans og bróðir Páls á Guðlaugsstöðum var hinn þjóðkunni læknir og frumlegi gáfumaður Guðmundur prófessor. Það var síðla vors að ég kom á hálsbrúnina fyrir ofan Guðlaugsstaði, og hafði að baki mér hið víðlenda og grösuga heimaland jarðarinnar, en neðar, allt að Blöndu, stórt og gróskumikið tún. Sunnan lækjarins í túninu gat að líta stóran og reisulegan bæ með hvítum baðstofuþiljum og háreistum stöfnum fram á hlaðið. Hér var sjón sögu síkari: Slíkan bæ hafði ég ekki áður séð. Torfveggir hans voru sem steyptir í mót, hlaðið sópað og prýtt, og er inn var komið vítt til veggja og hátt til lofts. Hér gat engum dulizt að hann var kominn á öndvegis sveitaheimili. Þau Guðlaugsstaðahjón voru þá í blóma lífsins og búskapar síns. Vinnufólkið margt og börn þeirra hjóna mörg uppkomin og farin að heiman til náms og starfs en þau yngstu enn heima. Hér hlaut að vera starfað af alúð og kostgæfni. Það gat engum dulizt. Síðar kynntist ég því hversu heilshugar bóndi Páll á Guðlaugsstöðum var. Á unga aldri hafði hann eitt sinn skipt á vasaúri sínu og gimbrarlambi, og átti aldrei úr eftir það. Til síðustu stundar var sauðkindin yndi hans og arðsvon. Það nægði honum ekki að fullnýta hina stóru bújörð sina, heldur átti hann og jafnan margt fé á fóðri annars staðar. Sá mun hafa verið háttur Páls á Guðlaugsstöðum, er hann tók úr fé sínu á haustin, að binda sig ekki við ákveðna tölu, heldur taka til lífs þá einstaklinga, ,sem hið glögga fjármannsauga taldi gott efni til viðhalds og aukningar stofninum, enda var hann jafnan heybirgur, og þvi sízt að furða þótt kindurnar yrðu stundum margar. Ég var eitt haust staddur í Kúlurétt og sá Pál á Guðlaugsstöðum draga fé sitt. Engan bónda hef ég séð sýsla að fé sínu með slíkri ánægju, sem hann. Það var eins og hann tæki á móti hverri kind með fögnuði. Páll var þá bæði fjallkóngur á i Auðkúluheiði og réttarstjóri í Auðkúlurétt. Hvorutveggja mun hafa þótt sjálfsagt. | Trúlega hefur verið gaman fyrir Pál bónda að reka fé sitt heim að kveldi með húskörlum sínum og uppvaxandi sonum. Heimilið beið hans að loknu dagsverki, með hvíld og öryggi. Réttardagurinn hefur löngum verið mikill gleðigjafi íslenzka bóndans og er vonandi að svo verði jafnan. | Nú eru þau Guðlaugsstaðahjón bæði gengin til feðra sinna: Hún dáin fyrir nokkrum árum, en hann andaðist í hárri elli þ. 4. þ m. Elli Kerling hafði um nokkur ár komið Páli á Guðlaugsstöðum á kné, svo að hann varð að halda sig við rúmið. En hugur hans og sinni var hið sama til síðustu stundar. Allur við búskapinn og skepnurnar. Það er mikil hamingja hverjum einstaklingi að eiga slík hugðarefni, sem Páll á Guðlaugsstöðum, og mega helga sig þeim um langa ævi og árangursríka. Guðrún kona hans dvaldi sem barn í miklu umkomuleysi á heiðarbýli svo sem segir í ævisögu föður hennar, er út kom fyrir stuttu. Sem húsfreyja á Guðlaugsstöðum var hún mjög rómuð fyrir hæfileika sína og hélzt það álit almennings til æviloka hennar. Þau Guðlaugsstaðahjón voru að mörgu leyti mjög ólík. En þau eru gott dæmi um það. hvernig samstarf ábyrgra aðila getur reynzt, ef vilji og manndómur er fyrir hendi og allir aðilar njóta sín. Búskapur þeirra Páls og Guðrúnar sýndi þetta. Og börn þeirra hafa óumdeilanlega sýnt, að þau eru meiðar af sterkum stofni. En þau eru: auk sex, sem dóu í bernsku, Hannes stjórnarráðsfulltrúi, áður bóndi á Undirfelli, Elinbergur (dó uppkominn). Björn alþm. á Löngu mýri, Guðmundur bóndi á Guðlaugsstöðum, Hulda húsfreyja á Höllustöðum, dr. Halldór sauðfjár ræktarráðunautur og Ásdís hárgreiðslukona í Reykjavík. Páll á Guðlaugsstöðum verður kvaddur á morgun og lagður við hlið konu sinnar i heimagrafreit á óðali þeirra Guðlaugsstöðum. En þeirra Páls og Guðrúnar mun verða minnzt sem einna merkustu hjóna sem byggðu Húnaþing á fyrri hluta þessarar aldar

  1. febrúar 1960.

G. G.

Relationships area

Access points area

Subject access points

Place access points

Occupations

Control area

Authority record identifier

HAH9412

Institution identifier

IS-HAH

Rules and/or conventions used

Status

Final

Level of detail

Full

Dates of creation, revision and deletion

MÞ 05.07.2023

Language(s)

  • Icelandic

Script(s)

Maintenance notes

  • Clipboard

  • Export

  • EAC

Related subjects

Related places